Starfsmenn Héðins hafa að undanförnu unnið hörðum höndum að stækkun og endurnýjun fiskmjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði. Setja á upp aðra suðu- og pressulínu sem kemur til með að auka afköst og sveigjanleika í keyrslu verksmiðjunnar. Þrír nýir þurrkarar koma í stað þeirra fjögurra sem fyrir eru, en þeir eru komnir nokkuð til ára sinna.

Þurrkarar og sjóðari eru hannaðir af samstarfsaðila Héðins Amof-Fjell í Noregi en þeir byggja á áratuga reynslu Atlas Stord af smíði og hönnun á tækjabúnaði fyrir fiskmjölsverksmiðjur. Þurrkarar og sjóðari eru nú í smíði í Póllandi hjá sama verkstæði og smíðaði þurrkara fyrir Atlas-Stord á sínum tíma. Allt stál sem notað er við smíðina er framleitt í Þýskalandi. Pressan kemur frá Babbini í Ítalíu en þeir eru vel þekktir í íslenskum fiskmjölsverksmiðjum.

Forsjóðari kemur frá Héðni og er smíði hans á lokametrunum. Hönnun, fyrirkomulag og uppsetning búnaðar, smíði á sniglum, lögnum, pöllum og öðru sem felst í svo viðamiklum breytingum sér Héðinn um með dyggri hjálp heimamanna.

Að sögn Þórðar Jónssonar, verkefnisstjóra breytingana, eru þessar framkvæmdir liður í stöðugum endurbótum á búnaði verksmiðjunnar til að mæta auknum kröfum um framleiðslugæði, hagkvæmni og mengunarvarnir.

„Fiskmjölsverksmiðjan er mikilvægur þáttur í rekstri Skinneyjar-Þinganess til að tryggja fullvinnslu á því hráefni sem fellur til við vinnslu í frystihúsinu. Verksmiðjan var reist veturinn 1998-1999 og tók þá við af eldri verksmiðju sem hafði verið starfrækt frá 1970. Á þessum rúmlega 15 árum sem liðin eru hefur stöðugt verið hugað að endurbótum. Byggt hefur verið nýtt löndunarhús með tilheyrandi búnaði, verkstæðis- og þjónustuhús var endurnýjað og mjölblöndunartankar settir upp. Í fyrra náðist svo sá stóri áfangi að við tókum í notkun rafkyntan ketil og notumst núna eingöngu við innlenda orkugjafa,“ segir Erlingur Brynjólfsson verksmiðjustjóri.

Forsjóðarar eru mikil listasmíð, þar sem nákvæmni og vandvirkni skipta öllu máli.