Héðinn hefur tekið í notkun nýja fimm ása fræsivél til viðbótar við þá sem fyrir var. Nýja fræsivélin er sömu gerðar og sú sem fyrir var, Mazak VTC 800/30SR. Þetta eru stærstu fræsivélar landsins í sínum flokki. Þær eru staðsettar í nýrri álmu á Renniverkstæði Héðins sem tekin var í notkun 2013 þegar fyrri Mazak fræsivélin kom til landsins.

Mazak fræsivélarnar gera það mögulegt að fást við fleiri og stærri fræsiverkefni en áður og vinna þau hraðar og af meiri nákvæmni. Hægt er að vinna með allt að 3 metra langa málmhluti hverju sinni í hvorri fræsivél, 80 sm breiða og 72 sm háa. Vinnuborðið er snúningsborð sem getur farið allt að 110 gráður í hvora átt, en við það fást fjórðu og fimmtu vinnuásarnir.Tölvustýrður fræsihausinn vinnur mjög hratt, fer á 50 metra hraða á mínútu og tekur aðeins 1,3 sekúndur að skipta um verkfæri. Hann getur unnið með 48 mismunandi verkfæri, þar á meðal bora, fræsa, snitttappa og snittbómur. Spindillinn er vatnskældur til að hægt sé að keyra á hámarks afköstum óháð hörku efniviðarins. Mótor fræsivélarinnar er 58 kW.

Mazak_tvær_fræsivélar_IMG_0393

Nýja Mazak fimm ása fræsivélin og til hægri sést í eldri vélina. Báðar fræsivélarnar hafa verið í fullri notkun frá því að þær voru teknar í notkun.

Þegar fyrri Mazak fræsivélin var tekin í notkun 2013 sagði Guðmundur S. Sveinsson framkvæmdastjóri Héðins að fyrirtækið hefðu alltaf lagt mikla áherslu á að vera með besta og öflugasta búnað sem til væri hverju sinni. „Aðeins þannig getum við verið viss um að veita viðskiptavinum bestu mögulega þjónustu og tekist á við flóknustu og erfiðustu verkefni sem upp koma á okkar sviði,“ sagði Guðmundur við það tilefni.

Stjórnbúnaður Mazak fræsivélanna er Mazatrol Matrix og með honum er jafnt hægt að fræsa eftir tölvugerðum vinnuteikningum og handstilla fyrir einfaldari verkefni.

Mazak er einn stærsti framleiðandi fræsivéla í heiminum. Fyrirtækið er japanskt og var stofnað árið 1919. Það rekur verksmiðjur víða um heim, fimm í Japan, eina í Bretlandi, eina í Bandaríkjunum, eina í Kína og eina í Singapore.