Rætt var við tvo starfsmenn Héðins í sérblaði Fréttablaðsins um Málmiðnað. Þau Grétar og Margrét Jónína ræða við blaðamann um starfið, námið og vinnuna. Færsluna má skoða lesa hér fyrir neðan. Blað Fréttablaðsins um Málmiðnað má skoða í heild sinni hér.

Nám í málmiðnaði og véltækni býður upp á fjölbreytt atvinnutækifæri og ágætis laun að sögn Grétars og Margrétar sem starfa bæði hjá Héðni. Verkefnin eru fjölbreytt og spennandi auk þess sem andinn er góður meðal starfsmanna og góð og björt vinnuaðstaða.

Þau Grétar Ólafsson vélstjóri og Margrét Jónína Árnadóttir vélvirki eru bæði fædd 1990 og hafa starfað í véladeild Héðins frá því að námi lauk. Þau eiga það sameiginlegt að hafa tekið stúdentspróf áður en þau áttuðu sig endanlega á því að véltæknin heillaði meira en áframhaldandi bóknám. „Ég var alltaf að gera við reiðhjólin fyrir vini mína og svo færðist dellan yfir á mótorhjól, vélsleða og jeppa,“ segir Grétar, sem er vélfræðingur og 4. stigs vélstjóri úr Vélskóla Tækniskólans. „Ég var byrjaður í HR þegar ég áttaði mig á því að mig langað ekki til að sitja við tölvu í Autocad alla daga og dreif mig þá í vélstjóranámið.“ Hann lætur ekki þar við sitja og er nú á fullu í viðbótarnámi í rafvirkjun. Margrét segir að hún hafi alltaf haft áhuga á bílum og ætlaði í bifvélavirkjun eftir stúdentsprófið. „En svo áttaði ég mig á því að með námi í vélvirkjun hefði ég miklu fjölbreyttari atvinnumöguleika, að ég gæti unnið jafnt við bíla sem annan vélbúnað.“

Fjölbreytt verkefni

Hún segist í raun ekki hafa haft hugmynd um hvað hún var að fara út í þegar hún hóf námið. „En svo er þetta bara alveg ótrúlega gaman og ég er fegin að hafa farið þessa leið.“ Hún ætlar þó ekki að láta stað- ar numið og stefnir á frekara nám í vélaverkfræði. Margrét segist stundum lenda í rökræðum við karlmenn sem telja sig vita sitt af hverju um vélar. „Þeir taka því nú ekkert alltaf vel þegar ég leiðrétti einhverja vitleysuna úr þeim,“ segir hún hlæjandi. Þau Grétar og Margrét eru afar ánægð með að starfa hjá Héðni. „Þetta er svo stórt fyrirtæki að verkefnin eru fjölbreytt og spennandi,“ segir Grétar, sem sinnir Rolls-Royce Marine þjónustu hjá Héðni. Meðal verkefna hans er uppsetning og við- hald á stýribúnaði og tölvubúnaði og tengivinna um borð í skipum við- skiptavina Héðins.

Fjölbreytt atvinnutækifæri

Margrét sinnir einkum viðhaldi og viðgerðum á mótorum, spilum og tjökkum. Hún er ekki há í loftinu en lætur ekki trufla sig þó að stundum hafi hún ekki krafta á við karlkyns vinnufélaga. „Ég nota þá bara krana meira til að létta undir með mér.“ Þau tala hlýlega um Héðin og nefna til sögunnar góðan anda meðal starfsmanna, frábært mötuneyti og góða og bjarta vinnuaðstöðu í nýja húsinu við Gjáhellu. „Mannlegi þátturinn í samskiptum við yfirmenn er líka á afskaplega jákvæðum nótum,“ segir Margrét. „Maður mætir alltaf skilningi þegar aðstæður breytast skyndilega, börnin veikjast eða eitthvað annað kemur upp á.“ Grétar tekur undir þetta, hann er í björgunarsveit og fær að sinna útköllum þegar mikið liggur við. Mæla þau með námi og starfi í málmiðnaði og véltækni? „Ekki spurning. Þetta er skemmtilegt nám og skemmtileg vinna, fjölbreytt atvinnutækifæri og ágætis laun.“